Innlent

Þráspurt um hæfi rann­sak­enda

Stígur Helgason skrifar
Sakborningar málsins, þeir Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason, með verjendum sínum.
Sakborningar málsins, þeir Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason, með verjendum sínum. Mynd/ GVA.

Verjendur Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar í Vafningsmálinu hafa kallað fjóra starfsmenn sérstaks saksóknara fyrir dóminn sem vitni í morgun og þráspurt þá um rannsókn málsins, augljóslega í því skyni að finna á henni höggstað.

Á meðal þeirra sem hafa komið fyrir dóminn er Björn L. Bergsson, sem um tíma gegndi stöðu setts ríkissaksóknara í málum sem heyrðu undir sérstakan saksóknara, eftir að Valtýr Sigurðsson, þáverandi ríkissaksóknari, lýsti sig vanhæfan í málum tengdum bankahruninu.

Björn kom að athugun á vegum sérstaks saksóknara á því hvort störf tveggja aðalrannsakenda Vafningsmálsins fyrir þrotabú Milestone hefðu spillt sakamálinu. Hann, eins og aðrir sem könnuðu þetta fyrir saksóknara, voru spurðir ítarlega um málið af verjendunum tveimur.

Símon Sigvaldason héraðdómari stöðvaði spurningaflóð Þórðar Bogasonar, verjanda Guðmundar Hjaltasonar, í miðju kafi með þeim orðum að spurningarnar væru ómarkvissar og bað hann að stytta mál sitt. Þórði var síðan leyft að halda áfram.

Það var samdóma mat þeirra sem könnuðu hæfi rannsakendanna tveggja, Jóns Óttars Ólafssonar og Guðmundar Hauks Gunnarssonar, að störf þeirra fyrir þrotabúið hefðu ekki spillt rannsókn Vafningsmálsins.

Jón Óttar gaf skýrslu fyrir dómi á þriðjudag og gengu verjendur afskaplega hart að honum í langan tíma - of langan tíma að mati dómaranna. Guðmundur Haukur gefur skýrslu síðar í dag og hafa verjendur boðað að þeir muni spyrja hann með sama hætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×