Enski boltinn

Chicharito afgreiddi Aston Villa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Javier Hernandez var hetja Manchester United en hann skoraði tvö mörk í 3-2 sigri á Aston Villa eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Villa komst 2-0 yfir í leiknum.

Austurríkismaðurinn Andreas Weimann skoraði bæði mörk Aston Villa. Fyrst í uppbótartíma fyrri hálfleiks með föstu skoti eftir góðan undirbúning Christian Benteke.

Weimann skoraði svo öðru sinni snemma í síðari hálfleik. Í þetta sinn af stuttu færi eftir fasta fyrirgjöf Gabriel Agbonlahor.

En þá var komið að þætti Javier Hernadez - Chicharito. Fyrsta markið kom á 58. mínútu er hann laumaði boltanum í markið úr erfiðri stöðu.

Fimm mínútum skaut Hernandez að marki. Boltinn breytti um stefnu á Ron Vlaar og skráðist markið sem sjálfsmark á hann.

Robin van Persie komst svo nálægt því að skora en setti boltann tvívegis í slána. En Chicharito brást ekki bogalistin þegar hann komst enn á ný í færi eftir aukaspyrnu Van Persie. Hann skoraði með laglegum skalla og tryggði United sigur.

United er á toppi deildarinnar með 27 stig, fjórum stigum á undan Chelsea sem á leik til góða. Aston Villa er í sautjánda sæti með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×