Sport

76 ára bið Breta lauk í nótt

Murray með bikarinn eftirsótta.
Murray með bikarinn eftirsótta.
Skotinn Andy Murray vann sögulegan sigur á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis í nótt. Murray lagði þá Serbann Novak Djokovic í hreint ótrúlegum leik sem stóð í tæpa fimm klukkutíma.

Murray vann fyrstu tvö settin - 7-6 og 7-5 - en Serbinn neitaði að gefast upp og vann næstu tvö, 2-6 og 3-6.

Murray var aftur á móti mun sterkari í lokasettinu sem hann vann, 6-3.

Þetta var fyrsti risatitill Breta í tennis í heil 76 ár eða síðan Fred Perry vann sama mót á sama velli árið 1936. Er því óhætt að segja að Bretar hafi verið búnir að bíða lengi eftir þessum titli.

"Þegar ég áttaði mig á því að ég hefði unnið var ég í hálfgerðu losti. Það var mikill léttir," sagði Murray sem þótti ekki sýna nægilega miklar tilfinningar eftir þennan sögulega sigur.

Murray, sem vann líka ÓL-gull í sumar, var búinn að tapa fjórum úrslitaleikjum á ferlinum. Sigurinn þakkar hann að stóru leyti þjálfaranum, Tékkanum Ivan Lendl, sem hefur gjörbreytt leik hans og gert hann að meistara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×