Innlent

Vill kjósa fyrr frekar en að upplifa annan vitleysisvetur

Lúðvík Geirsson
Lúðvík Geirsson
„Við eigum ekki að þurfa upplifa einhvern vitleysisvetur, þjóðin á að fá að taka afstöðu til lykilmála og veita stjórnmálaöflum umboð til þess að halda áfram," sagði Lúðvík Geirsson, þingmaður Samfylkingarinnar í útvarpsþættinum Í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann sat fyrir svörum ásamt Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins.

Lúðvík segir að þjóðin eigi ekki að þurfa upplifa annan eins pólitíska vetur og hér ríkti á síðasta þingi. Hann vill kjósa fyrr, ef allt stefnir í óefni.

„Og ég hef talað fyrir því - og segi það opinberlega hér - að ef ástandið verður þannig að menn ætla að sigla inn í veturinn í uppnámi og stór mál verða tekin í gíslingu og stjórnarliðar mæta ekki samhentir til þings, eins og við höfum upplifað, þá sé ég ekkert annað vit í stöðunni en að það verði kosið fyrr en ella," sagði Lúðvík umbúðalaust sem telur stjórnmálaástandið ekki almenningi bjóðandi eins og það var hér síðasta vetur.

Vigdís tók undir þetta sjónarmið.

Þá tókust stjórnmálamennirnir á um umsóknina að Evrópusambandinu. Þar hélt Vigdís því fram að stjórnvöld væru í raun og veru búin að fá niðurstöðu í samningaviðræðurnar.

„Vandamálið við umræðuna hér á landi er að því er haldið fram að hér sé eitthvað annað en Lissabon-sáttmálinn í boði. Sem er nokkurskonar stjórnarskrá ESB. Og það hafa komið skilaboð frá Brusssel um að það verða engar undanþágur í boði," sagði Vigdís sem heldur því fram að tæknilega séð séu samningaviðræðum lokið - það sem sé í boði sé óbreyttur Lissabon-sáttmáli án undanþága.

Þessu vísaði Lúðvík alfarið á bug. Sagði þetta einfaldlega rangt og að það væri ómögulegt að fullyrða nokkuð um slíkt fyrr en samningurinn væri tilbúinn.

Hægt er að hlusta á stjórnmálamennina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×