Innlent

Þakklát fyrir að lifa

Nýtur lífsins og hvetur fólk til að draga úr stressi í sínu lífi.
Nýtur lífsins og hvetur fólk til að draga úr stressi í sínu lífi. fréttablaðið/stefán
Ingibjörg Stefánsdóttir jógakennari er fertug í dag. Þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til Ingibjargar var hún nýbúin að taka ákvörðun um að halda upp á daginn. "Það er dæmigert fyrir mig að gera allt á síðustu stundu.

Ég var búin að vera að pæla í því að halda upp á afmælið en svo ákvað ég bara í dag í sturtunni að gera eitthvað og bjóða heim til mín." Spurð hvort hún haldi yfirleitt upp á afmælið sitt segir Ingibjörg að það sé upp og ofan. "Ég geri það ekki alltaf en mér þykir samt mjög vænt um afmælisdaginn minn. Ég er svo þakklátt fyrir að eiga afmæli, þakklát fyrir að lifa. Mamma mín lést þegar hún var ekki nema 33 ára gömul þannig að ég get ekki annað en verið glöð með afmælisdaginn minn."

Aldurskomplexar eru því skiljanlega víðs fjarri Ingibjörgu. "Ég er ekki á neinum einasta bömmer - enda er aldur svo afstæður í dag. Aldur er heldur ekki bara tala, heldur bæði andlegur og líkamlegur aldur."

Ingibjörg er eigandi jógastöðvarinnar Yoga Shala og segir hún vera í nógu að snúast á þessum árstíma þegar haustið er að bresta á. "Mesta sprengjan hjá okkur er alltaf á haustin þó að það sé orðið mikið að gera allan ársins hring. Jóga hefur unnið sér varanlegan sess hjá Íslendingum, það mætir alls konar fólk í tíma og kennararnir okkar eru líka litríkur hópur."

Ingibjörg hefur kennt jóga frá því að hún flutti heim frá Bandaríkjunum árið 1999 og segir hún alltaf hafa jafn gaman af því. "Ég elska að kenna jóga og svo fæst ég líka við næringarráðgjöf sem er mjög skemmtilegt."

Auk anna í vinnunni stendur Ingibjörg líka í flutningum þannig að það er í nógu að snúast hjá henni. "Ég er að flytja í aðra íbúð í húsinu sem ég bý í. Ég á heima í húsinu sem ég ólst upp í og amma mín líka.

Við erum að skipta um íbúð," segir Ingibjörg sem segir það hafa marga kosti að búa í sama húsi og amman. "Þetta er svona indversk stemming hjá okkur: allir saman. Og eldri dóttir mín þriggja og hálfs árs nýtur góðs af, hún fer alltaf upp til ömmu sinnar á morgnana og kúrir hjá henni í morgunsárið."

Ingibjörg segist afar sátt við þann stað sem hún er á í lífinu. "Ég er bara alltaf að reyna að njóta lífsins út í ystu æsar. Mér finnst Íslendingar vinna alltof mikið, við eigum að vera meira með fjölskyldu og vinum. Það er of mikið stress í gangi," segir Ingibjörg sem hvetur fólk til að huga að lífsstíl sínum. "Það er alveg hægt að breyta um lífsstíl, við sjáum ótal dæmi um það hér í jógastöðinni."

sigridur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×