Innlent

Skilin eftir úti í nístingskulda með feldinn frosinn við stéttina

Erla Hlynsdóttir skrifar
Yfirvöldum hefur borist fjöldi ábendinga vegna illrar meðferðar á hundstík á heimili í Kópavogi, en ekkert hefur verið aðhafst. Þegar verst lét var tíkin skilin eftir úti í nístingskulda með feldinn frosinn við gangstéttina.

Þegar Árni Stefán Árnason frétti af málinu síðasta haust fór hann til eigandans og bauðst til að taka tíkina að sér, án eftirmála fyrir eigandann. Tíkin, sem hann gaf nafnið Kolla, hefur búið hjá honum síðan.

Á föstudaginn slapp hún út og hvarf í tvo sólarhringa. Tíkin fannst á heimili fyrri eiganda, og hefur Árni hann grunaðan um að hafa stolið Kollu.

Hún er komin aftur til Árna, en hann undirbýr nú kæru á hendur fyrrum eiganda hennar.

„Ég kæri hann fyrir illa meðferð á dýrum, honum er skylt samkvæmt 2. grein dýraverndarlaga að fara vel með dýr," segir Árni Stefán.

Nágrannar mannsins í Kópavogi segja Kollu aldrei hafa fengið að fara inn í íbúðina en oft verið geymd í bílskúrnum.

„Þeir nágrannar sem ég hef talað við og hafa lýst þessu fyrir mér segja verstu tilvikin væru þau að tíkin hefur legið úti, bundin tímunum saman í kulda og frosti, jafnvel með feldinn frosinn við jörðina, án vatns og fóðurs. Þessi meðferð á við um líklega fimm til sex hunda síðasta áratug," segir hann.

Samkvæmt lögum um dýravernd hefur lögreglan fulla heimild til að taka dýr af umráðamanni ef sterkur grunur leikur á að dýrið sæti illri meðferð. Dýraeftirlitið hefur sömu heimild, en þessu hefur ekki verið framfylgt í máli Kollu.

„Það er eins og maður gangi á vegg og yfirvöld bregðast alls ekki við, eða mjög seint og illa," Árni Stefán.

Við vinnslu fréttarinnar náðist ekki tal af meintum hundaníðingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×