Lífið

Sagan klöppuð í stein

Jóna Hlíf Halldórsdóttir lengst til hægri ásamt Halldóri Úlfarssyni, Söru Riel, Oddnýju Daníelsdóttur, höllu björk Kristjánsdóttur, sýningarstjórum afmælissýningarinnar í Kling og Bang.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir lengst til hægri ásamt Halldóri Úlfarssyni, Söru Riel, Oddnýju Daníelsdóttur, höllu björk Kristjánsdóttur, sýningarstjórum afmælissýningarinnar í Kling og Bang. fréttablaðið/stefán
Myndhöggvarafélagið í Reykjavík á 40 ára afmæli í dag. Auk afmælissýningar og ýmissa uppákoma gefur félagið út bók sem inniheldur yfir hundrað hugmyndir að myndlistarverkum í almannarými.



Afmælissýning Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík verður opnuð í Kling og Bang galleríi í dag en félagið var formlega stofnað á þessum degi árið 1972. Sýnd verða verk sem hafa þróast beint eða óbeint fyrir tilstilli félagsins í gegnum tíðina. Um leið kemur út bók sem fjallar um sögu félagsins undanfarna fjóra áratugi og inniheldur hugmyndir að verkum í almannarými. Jóna Hlíf Halldórsdóttir er formaður Myndhöggvarafélagsins.

"Við ákváðum fyrir um það bil ári að gefa út bók í tilefni þessara tímamóta," segir hún.

"Hugmyndin var að bjóða öllum félagsmönnum eina opnu til að setja fram hugmynd að verki í almannarými, annað hvort skissu eða verk sem hefur verið sett upp."

Myndhöggvarar létu ekki segja sér það tvisvar. Af 160 félagsmönnum tóku 102 þátt í bókinni.

"Þetta er öll flóran, bæði stofnfélagar og fólk sem gekk í félagið í ár," segir Jóna Hlíf. "Fyrir vikið er bókin skemmtilegur vitnisburður um þróunina sem hefur átt sér stað. Listamenn af eldri kynslóð inni senda gjarnan inn hugmyndir að skúlptúrum úr járni og steini en þeir yngri vinna meira með þrívídd."



Í bókinni rekur Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur sögu Myndhöggvarafélagsins og mikilvægi þess fyrir íslenska myndlist, sem Jóna Hlíf segir hafa verið mikið.



"Könnun sem við létum gera leiddi í ljós að um 40 prósent af þeim verkum sem sýnd eru á listasöfnum á Íslandi má rekja til Myndhöggvarafélagsins. Þar gegnir verkstæði félagsins, það eina sinnar tegundar hér á landi, stóru hlutverki og hefur verið sannkallaður suðupunktur listframleiðslu á Íslandi."

Jóna Hlíf segir markmið sýningarinnar og bókarinnar ekki síður að vekja almenna athygli á hlutverki listar sem hluta af almannarýminu.



"Umhverfið skiptir okkur svo miklu máli en því miður finnst mér ekki ríkja nógu mikill skilningur á því hversu stóru hlutverki listin gegnir í því sambandi. Í borgar skipulagi er það til dæmis yfirleitt síðast á dagskrá hvort það eigi að vera listaverk við tiltekið mannvirki, frekar en að huga að því strax frá upphafi."



Jóna Hlíf segir aðrir þjóðir á Norðurlöndum, sérstaklega Svía, hafa áttað sig á kostum þess að auka hlut listaverka í almannarýminu.



"Það hefur verið sýnt fram á að fólki líður almennt betur í slíku umhverfi, þetta hefur jákvæð áhrif á túrisma og bara nú í vikunni var verið að ræða í fréttum um að fallegt umhverfi gæti dregið úr tíðni afbrota og skemmdarverka."

Hún segir margar merkilegar hugmyndir í bókinni og vonast til að sjá sumar þeirra verða að veruleika.



"Það væri óskandi ef Reykjavíkurborg sæi sér fært að kaupa að minnsta kosti eitt verk og setja það upp við til dæmis Tjörnina eða Kringluna - möguleikarnir eru í sjálfu sér óþrjótandi."

bergsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.