Sport

Sharapova í undanúrslit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sharapova á leirnum í París í dag.
Sharapova á leirnum í París í dag. Nordicphotos/Getty
Maria Sharapova frá Rússlandi tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum á Opna franska meistaramótinu í tennis. Sharapova lagði hina eistnesku Kaiu Kanepi í tveimur settum, 6-2 og 6-3.

„Það er frábært að vera komin í undanúrslit aftur. Þetta er í þriðja skipti sem ég kemst svo langt. Ég vona svo sannarlega að mér takist að fara alla leið í þetta skiptið," sagði Sharapova og bætti við: „Hvaða stelpa skemmtir sér ekki vel í París?"

Sharapova, sem er næstefst á heimslistanum, þykir líklegust til sigurs á mótinu. Hefði allt verið eðlilegt hefði hún mætt Serenu Williams í undanúrslitum. Williams féll hins vegar óvænt úr keppni gegn Virginie Razzano í fyrstu umferð mótsins.

Sharapova mætir sigurvegaranum úr viðureign Yaroslövu Shvedovu frá Kasakstan og Petru Kvitovu frá Tékklandi sem eigast við síðar í dag.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Samantha Stosur frá Ástralíu og Sara Errani frá Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×