Innlent

Steingrími var boðið að gerast fjármálastjóri Grikklands

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra.
Steingrími J. Sigfússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, var boðið að gerast sérstakur fjármálastjóri á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Grikklandi í sex mánuði, en neitaði. Steingrímur segist hafa verið beðinn um þetta þegar hann sótti fund hjá sjóðnum í Washington.

Steingrímur greindi frá þessu í þættinum Silfri Egils á Rúv fyrr í dag. Steingrímur sagðist hafa verið á göngunum eftir að hafa sótt fund hjá Alþjóðgjaldeyrissjóðnum í Washington þegar hann hafi verið spurður hvort hann væri til í að „taka við" Grikklandi í sex mánuði.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar fólst starfið í því að vera nokkurs konar æðsti embættismaður fjármála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í ríkinu, en Grikkland hefur þegið fjárhagslega aðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eftir hrunið og er sem stendur að ganga í gegnum sérstaka áætlun í samstarfi við sjóðinn.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir berast um ánægju æðstu embættismanna AGS með störf Steingríms, því þegar Lee Buchheit, sem var aðal samningamaður Íslands í síðari Icesave-samningunum (Icesave III), kynnti samningana á fundi í Öskju í Háskóla Íslands hinn 10. desember 2010 fékk hann spurningar úr sal um tengsl AGS áætlunar og nýrra samninga. Sagðist Buchheit hafa sótt fund ásamt Steingrími hjá stjórn sjóðsins í Washington og að framganga Steingríms þar og málflutningur hefði ekki síst orðið þess valdandi að stjórn sjóðsins samþykkti endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og þar með áframhaldandi greiðslur til landsins þótt ekki væri búið að semja í Icesave-deilunni. (Sjá hér).

Þegar stjórn AGS samþykkti endurskoðaða efnahagsáætlun fyrir Ísland meðan Icesave deilan var óleyst eftir fyrri synjun forsetans þóttu það nokkur tíðindi þar sem lengi vel virtist stjórn sjóðsins gera kröfu um lausn á deilunni þegar endurskoðuð efnahagsáætlun var annars vegar. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×