Innlent

Stúlkan hefði getað hlotið alvarlegan augnskaða

Karen Kjartansdóttir skrifar
Mennirnir sem slógu gólfkúlu vísvitandi í andlit lítillar stúlku eru heppnir að hún slasaðist ekki meira. Þetta segir Svanur Sigurbjörnsson, læknir, en hann telur að barnið hefði getað hlotið alvarlegan augnskaða eða jafnvel höfuðkúpubrot.

Við ræddum á föstudag við hana Sóldísi Ísaksdóttur, sjö ára, en hún lenti á slysadeild eftir að ungur maður sló golfkúlu viljandi í andlit hennar við Elliðavatn.

Maðurinn var í för með félögum sínum og höfðu þeir rekið Sóldísi og félaga hennar í burtu frá vatninu svo þeir gætu slegið kúlum út á það. Sóldís vildi hins vegar sækja hjólahjálminn sinn en við það reiddust mennirnir með fyrrgreindum afleiðingum.

Mennirnir skildu hana svo eftir grátandi og blóðuga án þess að huga að henni.

Svanur Sigurbjörnsson, læknir, segir það geta haft mjög alvarlegar afleiðingar að fá svona högg í höfuðið.

„Ef svona golfkúla fer beint í augað á barni eða fullorðnum þá getur orðið blæðing inn á augað og sjónhimnulos, af því getur hlotist verulegur augnaskaði ef ekki blinda - það er einna hættulegast," segir Svanur. „En auðvitað geta líka brotnað tennur við svona lagað og ef þetta er mjög lítið barn er möguleiki á höfuðkúpubroti."

Sóldís litla slapp með nokkur spor í munni og svo framan á vörinni. Foreldrar hennar biðja mennina um að gefa sig fram og biðjast afsökunar á þessari árás og hvetja auk þess þá sem kunna að vita hverjir voru að verki að tilkynna það lögreglu.

„Þegar svona högg er reitt er aldrei að vita hvað gerist. Hið versta getur gerst — þetta er mikið hættuspil og mjög alvarlegt," segir Svanur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×