Innlent

Jóhanna hugsanlega fjarverandi við atkvæðagreiðslu stærstu mála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir er á fundi Atlantshafsbandalagsins núna.
Jóhanna Sigurðardóttir er á fundi Atlantshafsbandalagsins núna.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tók tveggja vikna leyfi frá þingstörfum á föstudag. Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, tók hennar sæti á meðan. Ástæðan er sú að Jóhanna þarf, sem forsætisráðherra, að sinna fjölmörgum erindum erlendis. Þar á meðal er fundur Atlantshafsbandalagsins í Chicago sem stendur núna yfir. Þá mun Jóhanna sitja fleiri fundi erlendis undir lok mánaðarins.

Jóhanna mun því hugsanlega ekki geta greitt atkvæði um mörg stór mál sem bíða afgreiðslu í þinginu og til stendur að afgreiða áður en þingi lýkur í vor. Þar á meðal er tillaga um kosningar um tillögur stjórnlagaráðs, frumvörp um fiskveiðistjórnunarkerfið og auðlindagjald, og jafnframt rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Jóhanna verður ekki á samfelldu ferðlagi alveg til mánaðamóta og getur því að einhverju leyti tekið þátt í umræðu um eftirtalin mál á Alþingi sem ráðherra. En þar sem hún er í leyfi sem þingmaður getur hún ekki greitt atkvæði sjálf.

Samfylkingarmenn sem Vísir hefur rætt við segja reyndar að þessi staða sem komin er upp núna sé reyndar í samræmi við þá stefnu Samfylkingarinnar að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn og geti þannig orðið til þess að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×