Innlent

Stendur ekki í vegi fyrir vilja almennings ef óvissunni verður eytt

„Ef þjóðinni hefur tekist að eyða margvíslegri óvissu, varðandi stjórnarskrá, stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi, efnahagslíf og lífskjör almennings og þegar kominn er stöðugleiki í stjórnarfari og ný stjórnarskrá, þá myndi ég ekki standa í veginum fyrir því ef þjóðin vill þá velja sér nýjan forseta. Það er ákvörðun þjóðarinnar, ekki mín."

Þarna skýrir Ólafur Ragnar Grímsson forseti eigin orð, og svarar um leið spurningu Jóhannesar Benediktssonar í Beinni línu á dv.is í dag.

Jóhannes bað Ólaf Ragnar um að skýra þau umdeildu orð að hann myndi hugsanlega hverfa til annarra verkefna áður en næsta kjörtímabili lyki, yrði hann endurkosinn. Setning Ólafs Ragnars, sem um ræðir, er eftirfarandi:

„Það er einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning [...], muni ég hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr."

Um þessi orð hefur orðið töluverður misskilningur, til dæmis hafa sumir lagt þann skilning í orð forsetans að hann hygðist eingöngu sitja hálft kjörtímabil. Þessu neitaði Ólafur Ragnar algjörlega fyrr í fyrirspurnunum.

Svo virðist sem Ólafur Ragnar muni ekki sitja skemur nema margvísislegri óvissu verði eytt, og þá mun hann ekki standa í vegi fyrir vilja almennings, kjósi þjóðin að velja sér nýjan forseta.

Ólafur Ragnar var ennfremur spurður út í það hvað hann ætti við þegar hann talaði um óvissutíma. Ragnar Pétursson spurði: „Þú talar um óvissutíma. Felur það í sér að þjóðin og ráðamenn hennar geti að þínu mati farið illa að ráði sínu á næstu misserum, glutrað niður tækifærum eða fært mál til verri vegar? Hvernig þá helst?"

Ólafur Ragnar svaraði þá: „Óvissa er um nýja stjórnarskrá, óvissa um fjölda flokka og stöðuna á Alþingi að loknum næstu þingkosningum, óvissa um samband okkar við Evrópu, ýmis konar óvissa í efnahagsmálum. Þótt okkur hafi miðað áfram í áttina að endurreisn þarf ennþá að efla sóknina á mörgum sviðum og skapa nýjum kynslóðum fjölda tækifæra."

Hægt er að fylgjast með fyrirspurnunum hér. Þar er farið yfir víðan völl og margt nýtt sem kemur í ljós. Meðal annars vill forsetinn helst að ástralski leikarinn Russel Crowe leiki sig ef það yrði gerð bíómynd um líf forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×