Innlent

Ekkert verður af því að Hreyfingin styðji stjórnina

Ekkert verður af því að þingmenn Hreyfingarinnar samþykki að verja ríkisstjórnina falli. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokknum sem barst í morgun en viðræður hafa staðið í nokkra daga. „Því miður náðist ekki samkomulag og er viðræðunum lokið af okkar hálfu. Þar sem samningar hafa ekki tekist liggur ekki fyrir neitt samkomulag um að við verjum ríkisstjórnina vantrausti," segir í tilkynningunni en viðræðurnar voru sagðar „óbeint framhald" funda sem haldnir voru um síðustu áramót og skiluðu ekki heldur niðurstöðu.

„Það er skoðun okkar að þær smáskammtalækningar sem ráðist hefur verið í muni aldrei duga til að rétta stöðu þeirra heimila sem urðu fyrir forsendubresti við hrunið; þær eru kostnaðarsamar og fela í sér óréttlæti sem ekki er hægt að una við. Að okkar mati er nauðsynlegt að ráðast að rót vandans, leiðrétta lánin, afnema verðtrygginguna og skapa neytendavænt lánaumhverfi. Öðruvísi næst aldrei varanlegur árangur og hvorki sátt né réttlæti," segja þingmennirnir Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Eftir sem áður mun hópurinn þó „áfram vinna með sama hætti og áður og styðja öll góð mál, sama hvaðan þau koma, en ríkisstjórn sem ekki hefur getu til að takast á við brýnasta vanda samtímans getum við ekki stutt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×