Innlent

Rússnesku ömmurnar hafa mikið fylgi

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Greta Salóme Stefánsdóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson.
Greta Salóme Stefánsdóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson.
Eurovisionfarinn Greta Salóme Stefánsdóttir gefur lítið fyrir spádóma um úrslit Eurovisionkeppninnar. Íslenski hópurinn stígur á svið eftir um sjö klukkustundir og allt er að verða tilbúið fyrir stóru stundina. Hið svokallaða dómararennsli fór fram í gær sem gekk vel að sögn Gretu Salóme.

„Við þurftum að taka í rauninni showið alveg eins og það er frá byrjun til enda þannig að við vorum númer tvö í röðinni og sátum í græna herberginu og fylgdumst með keppninni það sem eftir var og það eru öll atriðin ótrúlega flott, það er bara svoleiðis," segir Greta Salóme.

Greta segir erfitt að segja til um hver sterkasti keppinautu íslenska hópsins er í kvöld en hennar uppáhaldslög koma frá Finnlandi og Sviss. „Svo eru rússnesku ömmurnar líka með okkur í riðli og þær hafa rosalega mikið fylgi í símakosningunni," segir hún.

Eruð þið eitthvað að fylgjast með veðbönkum, eða spám?

„Já, maður kemst náttúrulega ekki hjá því þegar maður er kominn út en það er jafn lítið að marka þá og verðuspána," segir hún.

Útsendingin frá keppninni hefst klukkan sjö að íslenskum tíma sem þýðir að Greta Salóme og Jónsi stíga á svið á miðnætti að staðartíma en þau verða önnur í röðinni.

„Okkur líst núna mjög vel á það. Svartfjallaland byrjar á undan okkur og það er rosalega sérstakt lag og síðan kemur Grikkland á eftir okkur og bæði lögin eru mjög ólík okkar lagi og þannig að ég held að það sé bara kostur," segir Greta Salome Stefánsdóttir Eurovisionfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×