Innlent

Annþór og Börkur í einangrun

Breki Logason skrifar

Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson sem afplána nú dóma á Litla-Hrauni hafa verið settir í einangrun grunaðir um að hafa veitt öðrum fanga áverka sem leiddu hann til dauða. Ekki hefur verið tekin skýrsla af mönnunum sem eru þekktir afbrotamenn.



Það var síðastliðinni fimmtudag sem Sigurður Hólm Sigurðarson, 49 ára gamall, fannst látinn í fangaklefa á Litla Hrauni en hann hafði komið þangað inn degi áður. Ekki var talið að dauða hans hefði borið að með saknæmum hætti en endurlífgunartilraunir sjúkraliða og lækna höfðu engan árangur borið.



Bráðabirgðaniðurstöður krufningar benda hinsvegar til þess að Sigurður hafi látist af völdum innvortis blæðinga sem þeir Annþór og Börkur eru taldi hafa veitt honum.



Þeir voru að ljúka afplánun eftirstöðva fyrri dóma en höfðu áður setið í gæsluvarðhaldi í tengslum við hrottafengnar líkamsárásir og ólögmæta nauðung. Gert er ráð fyrir að ákæra í þeim málum verði gefin út þann 1.júní



Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki búið að taka skýrslur af mönnunum en ráðgert er að það verði gert í kvöld eða fyrramálið.



Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn málsins og verst frekari frétta af málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×