Innlent

Sjálfstæðismenn vilja að borgin bregðist við veiðigjaldafrumvarpi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarráð á fundi.
Borgarráð á fundi. mynd/ gva.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks gagnrýna meirihluta borgarstjórnar harðlega fyrir að hafa ekki upplýst um það í borgarráði að Alþingi hefði óskað eftir umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp um veiðigjöld. Þetta kemur fram í bókun sjálfstæðismanna sem lögðu fram tillögu um óháða úttekt á afleiðingum veiðigjaldsins á rekstrarskilyrði fyrirtækja í sjávarútvegi, starfsfólk þeirra og atvinnulífið í borginni.

„Við viljum láta gera sjálfstæða úttekt á afleiðingum frumvarps um fiskveiðar og veiðigjöld fyrir borgina og borgarbúa og lögðum því fram tillögu um það í borgarráði. Það er algjört ábyrgðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram á Alþingi lagafrumvörp án þess að hafa skoðað í kjölinn hvaða afleiðingar þau geti haft fyrir efnahag og atvinnulíf þjóðarinnar. Í þessu tilfelli er grunnur gjaldtökunnar þannig að það þarf að skoða hvert byggðarlag fyrir sig og það hefur ekki verið gert. Það er ekki hægt að bjóða upp á svona vinnubrögð," segir Júlíus Vífill Ingvarsson borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðismenn benda á að Reykjavíkurborg er einn helsti útgerðarstaður landsins. Í borginni starfa þrjú stór útgerðarfyrirtæki og þar á meðal er stærsta fyrirtækið í greininni á landsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×