Innlent

Þriðja flóttatilraunin á árinu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Öryggisverðir Eimskips komu í nótt í veg fyrir að fimm hælisleitendur kæmust um borð í flutningaskip á leið til Bandaríkjanna. Þetta er þriðja sinn á árinu sem að laumufarþegar reyna að smygla sér um borð í skip félagsins.

Það var um ellefu leytið í gærkvöldi þegar öryggisverðir í Sundahöfn urðu varir við óvenjulegar mannaferðir við afgirt hafnarsvæðið. Fimm menn höfðu þá falið sig á bak við hús þar skammt frá. Þeir biðu eftir tækifæri til að lauma sér inn á svæðið og um borð í flutningaskipið Reykjafoss en skipið siglir til Bandaríkjanna.

Mennirnir létu svo til skara skríða rétt fyrir miðnætti og komu á hlaupum að öryggishliði á svæðinu. Þeir voru með lítinn farangur og virtust illa undirbúnir fyrir langa sjóferð. Þremur þeirra tókst að komast inn á svæðið. Öryggisverðir Eimskips brugðust strax við, kölluðu til lögreglu og reyndu að stöðva mennina. Einn komst þó alla leið að Reykjafossi. Eyþór H. Ólafsson, öryggisstjóri hjá Eimskip, segir hann hafa hætt við þegar bíll öryggisvarða nálgaðist hann.

Mennirnir reyndu að flýja frá öryggisvörðunum og lögreglu. Einn náðist og var handtekinn. Hann er hælisleitandi frá Marokkó á átjánda aldursári og hefur undanfarið dvalið á Fit-Hostel í Reykjanesbæ. Talið er að hinir mennirnir séu einnig hælisleitendur. Eyþór segir þetta í þriðja sinn á nokkrum mánuðum sem laumufarþegar reyna að komast í flutningaskip Eimskips en það séu óvenju margar tilraunir á stuttum tíma.

„Núna keyrði þetta alveg um þverbak þegar það voru fimm aðilar sem voru að reyna þetta. Þetta virkar á okkur eins og hálfgerð árás á svæðið," segir Eyþór.

Eimskip gæti þurft að greiða milljóna sekt ef laumafarþega tekst að komast með skipi félagsins til Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×