Innlent

Nóg að gera hjá björgunarsveitum og lögreglu

Gissur Sigurðsson skrifar
Enn er stormur og éljagangur um suðaustanvert landið, hvasst og gengur á með éljum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Töluvert öskufok er úr Eyjafjallajökli er sumstaðar á Suðurlandi, og moldrok ofan af hálendinu.

Mikið annríki var hjá björgunarsveitum og lögreglu víða um land alveg fram á kvöld, einkum við að aðstoða fólk í bílum,sem ýmist voru fastir eða ökumenn þeirra komust ekki lengra vegna lélegs skyggnis. Á nokkrum stöðum þurfti að hefta fok, en hvergi varð alvarlegt tjón.

Eftir því sem best er vitað sakaði engan í óveðrinu, en töluvert hefur nú dregið úr vindi nema á Suðausturlandi.

Sjókoma verður fyrir norðan og austan og veður fer heldur kólnandi. Hátt í 200 manns bíða flugs frá Egilsstöðum, flestir sem höfðu sótt þar íþróttamót, en þangað varð ófært í gær. Sömuleiðis til Ísafjarðar og Húsavíkur og Herjólfur gat ekki siglt í gær vegna hvassviðris við Landeyjahöfn.

Hálka er víða á vegum og sjálfsagt þæfingsfærð á einhverjum fjallvegum, en Vegagerðin er að kanna það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×