Innlent

Farþegar tóku atburðum með jafnaðargeði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Farþegar í vél Icelandair sem sveimaði yfir hafinu vestan megin við landið í allt kvöld tóku atburðinum með miklu jafnaðargeði, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Vísi. Flugvélin var á leið til Boston en svo kom í ljós að brotnað hafi upp úr einu hjólinu.

„Ég hef nú ekki upplýsingar aðrar en þær að fólk hafi tekið þessu með miklu jafnaðargeði. Þegar vél er kölluð til baka eins og í þessu tilfelli þá stendur fólki kannski ekki á sama en samkvæmt upplýsingum frá áhöfninni þá var fólk mjög rólegt og yfirvegað enda kannski ekki ýkja mikil hætta á ferðum," segir Guðjón.

Hann segir að ástæðan fyrir því að vélin hafi sveimað yfir landinu hafi verið sú að það hafi þurft að létta hana. Þetta sé hluti af eðlilegum öryggisráðstöfunum. Allnokkrum lítrum af bensíni hafi verið eytt.

Guðjón segir að flugvél eigi að geta farið með farþegana til Bandaríkjanna strax í kvöld. „Það er vél til reiðu og áhöfn til að halda þessari ferð áfram. Við munum fara yfir stöðuna og taka svo ákvörðun um brottfarartímann," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×