Innlent

Búinn að vera í björgunarsveitinni síðan 1979 - aldrei lent í öðru eins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Mikill viðbúnaður var á Keflavíkurflugvelli í gær en hátt í tvö hundruð björgunarsveitarmenn og viðbragðsteymi voru kölluð út. Farþegar héldu þó ró sinni og aðeins örfáir þurftu á áfallahjálp að halda.

Vélinni sem var á leið til Orlando í Bandaríkjunum var snúið við á sjöunda tímanum í gær eftir að hluti úr hjólabúnaði hennar fannst á flugbrautinni. Hættustigi Rauður var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli og allt tiltækt lið björgunarsveita og viðbragðsaðila kallað út.

„Ég er búinn að vera í þessu síðan 1979 og hef aldrei lent í eins miklum viðbúnaði eins og núna. Það voru allar björgunarsveitir á svæðinu og höfuðborginni og slökkvilið og sjúkralið af svæðinu. Þetta voru fleiri hundruð manns sem voru tilbúnir að taka á ef eitthvað kæmi upp á," segir Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri hjá Landsbjörgu.

Í fyrstu var áætlað lenda vélinni tuttugu mínútur fyrir átta en ákveðið var að láta hana hringsóla í rúman klukkutíma í viðbót til að eyða eldsneyti. Mikil óvissa ríkti um ástand hjólabúnaðar og tóku flugmenn því lágflug yfir Keflavíkurflugvelli til að sérfræðingar á jörðu niðri gætu metið skemmdirnar.

Það var svo rétt upp úr klukkan níu sem vélin lenti og gekk lending vel.

Vélin var svo dregin að flugstöðvarbyggingunni þar sem farþegar fengu áfallahjálp. Önnur vél var síðan fengin til að fljúga með fólkið til Bandaríkjanna.

„Það var einn og einn sem var hvekktur en flest allir sem komu út úr vélinni voru hressir og ánægðir að vera komnir í bygginguna," segir Gunnar.

Engin hræðsla greip um sig meðal farþega og þótti áhöfn vélarinnar standa sig vel.

Hvernig leið þér?

„Bara allt í lagi, ég var bara að horfa á bíómynd," segir Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir, farþegi.

Voru aðrir farþegar hræddir?

„Ég tók ekki eftir neinu."

Farþegar tóku svo aðra vél til Orlando í nótt.

Þú ætlar ekki að fara til Bandaríkjanna?

„Nei ég var að fara í sólarhringsferð með „crew-inu" en þær þurfa að hætta við þannig ég fer bara seinna," segir Hrafnhildur Eva.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×