Innlent

Gunnar Bragi: Ríkisstjórnin er að hita upp fyrir kosningar

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir ríkisstjórnina nota nýja fjárfestingaráætlun til að hita upp fyrir kosningar. Markmið hennar sé að safna að sér smáframboðum til stuðnings við mikilvæg mál.

Stjórnarflokkarnir kynntu í gær nýja fjárfestingaráætlun til þriggja ára þar sem áætlað er að fjárfesta tæpum fjörutíu milljörðum í nýsköpun, vaxandi atvinnuvegi og fasteignir. Stjórnarandstaðan gefur lítið fyrir þessa áætlun en forsvarsmenn hennar neituðu að mæta á kynningarfund um áætlunina í gær.

„Í fyrsta lagi eru forendurnar ekki til, það vantar tekjurnar þannig að hér er skellt einhverju fram með stuðningi Bjartrar framtíðar, allt á að taka gildi eftir kosningar. Það er ekki hægt að taka þetta öðruvísi en það sé verið að hita upp fyrir kosningar," segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Hann segir mikið af tillögum vera í þinginu sem lúta að sömu málum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekkert viljað líta við og því sé þetta einungis til að slá ryki í augu kjósenda. Forsendur áætlunarinnar séu alltof veikar.

Þá segir hann stuðning Guðmundar Steingrímssonar við málið og samningaviðræður ríkisstjórnarinnar við Hreyfinguna vera dæmi um að ríkisstjórnin telji sig ekki hafa meirihluta mikilvægum málum.

„Þetta er það sem þau ætla sér að reyna að gera; safna til sín einhverjum smáflokkum til að geta starfað eftir næstu kosningar og Guð forði okkur frá því," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×