Innlent

"Sköpum fleiri störf, stöndum saman og höldum áfram"

Launamenn kröfðust jöfnuðar og raunverulegra lausna við endurskipulagningu samfélagsins á fjölmennum útifundi í Reykjavík í dag í tilefni baráttudags verkalýðsins.

Fjölmenni tók þátt í kröfugöngu í Reykjavík í dag. Ungir sem aldnir söfnuðust saman við Hlemm og gengu saman fylktu liði niður Laugaveginn og að Ingólfstorgi til að sýna samstöðu í tilefni verkalýðsdagsins en slagorð fyrsta maí í ár er Vinna er velferð. Að lokinni göngunni fór síðan fram hátíðardagskrá.

„Við krefjumst samfélagsjöfnuðar og við krefjumst virðingar, við viljum fá reisnina aftur sem þjóð meðal þjóða, við krefjumst þess að auðlindir okkar, vinnuframlag og dugnaður endurspeglist í kjörum okkar," sagði Þórarinn Eyfjörð, formaður SFR.

„Á meðan hægt er að afskrifa skuldir þeirra sem töldu okkur trú um að þeir væru auðmenn þá berjast heimilin í bökkum við að standa í skilum við sínar skuldir. Það er öllum ljóst að við endurskipulagningu samfélagsins í kjölfar efnahagshrunsins hafa heimilin orðið útundan, við það verður ekki unað og það er skýr krafa okkar að við þeim mikla vanda sem heimilin eru í verði brugðist, við krefjumst raunverulegra lausna," sagði Þuríður Einarsdóttir, formaður Póstmannafélags Íslands.

„Við búum á gjöfulu landi, við höfum gnægð auðlinda, við höfum fjölmörg tækifæri sem nauðsynlegt er að nýta, sköpum fleiri störf, stöndum saman og höldum áfram, vinna er velferð," sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×