Innlent

Lögreglumenn neyðast til að borga sjálfir fyrir varnarbúnað

Mynd/Anton
Þriðjungur lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu telur sig skorta öryggis eða varnarbúnað við störf. Lögreglumenn hafa neyðst til að fjárfesta sjálfir í slíkum búnaði.

Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Landssamband lögreglumanna lét gera meðal lögregluþjóna. Helstu niðurstöður eru kynntar í nýjasta félagsblaði sambandsins.

Þar kemur meðal annars fram að þriðjungur lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu telur sig skorta öryggis eða varnarbúnað við störf. Í sumum tilfellum hefur þetta leitt til þess að lögreglumönnum hefur þótt að lífi sínu hafi verið ógnað.

Varnar- og búnaðarvestir eiga verja lögreglumenn gegn áverkum og eiga vera bæði skot- og stunguheld samkvæmt reglum ríkislögreglustjóra frá árinu 2010. Tæplega helmingur lögregluþjóna á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fengið slíkan búnað.

Í könnuninni kemur fram að tæplega fjörutíu prósent lögreglumanna hafa að eigin frumkvæði fjárfest í varnarbúnaði, til að mynda stunguhönskum, vestum og öryggisgleraugum.

Eins og kom fram í fréttum stöðvar tvö á laugardag vilja lögreglumenn fá heimild til að ganga um með tazer rafbyssur og fá skammbyssur í lögreglubíla að norskri fyrirmynd.

Niðurstöðu könnunarinnar eru nokkuð afgerandi hvað þetta varðar. Rúmlega 84 prósent vilja rafbyssur og rúmlega 83 prósent fara norsku leiðina.

Allt tóku 438 þátt í könnuninni eða 65 prósent starfandi lögreglumanna á landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×