Innlent

Kostnaður vegna Herjólfs lækkar um 60 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kostnaður vegna Herjólfs mun lækka.
Kostnaður vegna Herjólfs mun lækka.
Áætlað er að kostnaður ríkisins vegna rekstrar Herjólfs á næstunni verði nokkuð lægri en hann var í fyrra, samkvæmt nýjum samningi sem gerður hefur verið. Samningurinn nær til áranna 2012 - 2014. Styrkur Vegagerðarinnar til rekstrar Herjólfs var 740 milljónir króna en hann verður 681 milljón á ári samkvæmt nýja samningnum.

Samningurinn sem gerður var við Eimskip 27. apríl að loknu útboði, felur í sér að gert er ráð fyrir um 900 ferðum á ári í Landeyjahöfn og ríflega 300 ferðum á ári í Þorlákshöfn á samningstímanum. Mikill munur er á kostnaði við siglingar á þessar tvær hafnir og er tekið á því í samningnum. Ef sigldar verða fleiri ferðir í Landeyjahöfn getur samningsfjárhæðin lækkað og kostnaðurinn þar með. Hann gæti síðan hækkað ef sigla þarf fleiri ferðir í Þorlákshöfn á kostnað ferða í Landeyjahöfn.

Það er því ekki hægt að segja með vissu um hversu hagkvæmari þessi samningur verður. En miðað við þennan ferðafjölda reiknar Vegagerðin með að sparnaðurinn geti numið um 60 milljónum króna á ári, með samanburði við þann styrk sem greiddur var á síðasta ári og raunar mun meiri ef miðað er við kostnaðarhækkanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×