Innlent

Auðveldara að verða forseti N-Kóreu en ASÍ

Það er auðveldara að verða forseti Norður-Kóreu en ASÍ, segir Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýðsfélags Akraness. Í samtali við Reykjavík síðdegis í dag sagðist Vilhjálmur hafa verið að skoða þann möguleika að leggja fram tillögu um lagabreytingar á ársfundi Alþýðusambands Íslands. Með breytingunum hefði forseti alþýðusambandsins gríðarlega stórt bakland vegna þess að hann yrði kosinn í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal allra félagsmanna innan ASÍ en ekki á ársfundi eins og núna.

Vilhjálmur sagðist þó vera hóflega bjartsýnn á að fá tillögu sína samþykkta því að hann hefði áður lagt fram tillögu um að auka lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðum. Samkvæmt tillögunni hefðu stjórnarmenn verið kosnir beinni kosningu. Slík tillaga var felld með miklum meirihluta.

Vilhjálmur segist jafnframt vilja að farið verði í almennar aðgerðir til að bregðast við skuldavanda heimila í stað sértæku aðgerðanna. „Það hefur nánast ekkert verið gert fyrir skuldsett heimili nema í gegnum dómstóla. Einu raunverulegu leiðréttingarnar sem heimilin hafa fengið eru í gegnum gengistryggðu dómana og þar hefur komið leiðrétting upp á 147 milljarða króna," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×