Innlent

Þurfa að halda sig inni vegna ruslalyktar

Grafarvogsbúar hafa fengið sig fullsadda af súrri gaslykt og óþef af rusli sem leggur frá urðunarstaðinum á Álfsnesi og vilja starfsemina burt. Dæmi eru um að íbúar hafi þurft að halda sig inni við vegna ólyktar.

Íbúar í Mosfellsbæ og Grafarvogi hafa þurft að búa við lyktar og sjónmengun frá stöðinni um nokkurra ára skeið. Starfsleyfi Sorpu í Álfsnesi rennur út í lok þessa árs og því hefur verið ákveðið að halda íbúafund í kvöld þar sem framtíðaráætlanir verða ræddar.

„Þetta er tvennskonarlykt, annars vegar þessi súra gaslykt sem kemur frá þessari svokölluðu seyruholu þar sem er lykt af sterkum úrgangi úr lýsisframleiðslu, holræsarhverfum og sláturhúsum og annað slíkt. Og það er mjög lyktarsterkur úrgangur. Síðan er hin lyktin þessi týpíska ruslalykt, það kemur úr stálinu eða ruslahaugnum sjálfum," segir Rúnar Þór Guðbrandsson, formaður íbúasamtaka Leirvogstungu.

Rúnar segir lyktina versta á góðviðrisdögum en dæmi eru um að fólk veigri sér hreinlega við að fara út vegna ástandsins.

„Þess vegna höfum við lagt áherslu á það að það sé heppilegt að finna þessari starfsemi annan stað einhvers staðar þar sem þetta sé ekki fyrir augunum á fólki og þar sem þetta sé ekki svona nálægt svov að lyktarmengunin berist yfir byggðina," segir Rúnar.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, hefur verulegar áhyggjur af starfseminni hér og segir alla flokka vera samstíga í málinu. Því má búast við að hart verði sótt að forsvarsmönnum Sorpu á fundinum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×