Innlent

Breskur sjóliði um drykkju og skemmtanir: "Sjómenn kjafta aldrei frá"

Breska freigátan Saint Albans kom í vináttuheimsókn til Reykjavíkur í morgun. Þetta er fyrsta breska herskipið sem kemur hingað til lands frá því Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi.

Freigátan St. Albans var sjósett árið 2000 og var tekið formlega í notkun tveimur árum síðar. Skipið er vel vopnum búið en um borð eru 180 sjóliðar, karlar og konur.

Skipið er hingað komið eftir að hafa sinnt eftirlits og æfingarhlutverki á hafsvæðinu fyrir norðan skotland og voru sjóliðar önnum kafnir við að þrífa skipið þegar fréttastofu bar að garði í dag.

Um borð skipinu er Merlin þyrla sem fyrst og fremst hefur hernaðarlegt hlutverkt en hún getur einnig sinnt björgunarstörfum. Neðan þilja er ekki mikið pláss og hvert rými skipulagt út í ystu æsar. Yfirmenn fá þó meira pláss en óbreyttir sjóliðar.

Sjóliðarnir eru ánægðir með vistina. „Þegar við förum í einhverjar aðgerðir er mikið að gera á hverjum degi. En stundum er rólegra. Núna erum við að undirbúa komu fólks hérna á Íslandi. Og við fáum auðvitað að fara í land og sjá hvað Ísland hefur upp á að bjóða svo þetta er á báða vegu," sagði einn sjóliðinn við fréttastofu í dag.

Þegar hann var spurður að því hvort vist sjóliða í landi snúist ekki bara um drykkju og skemmtanir, svaraði hann: „Sjómenn kjafta aldrei frá."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×