Innlent

Samningur við Nubo ræddur á ríkisstjórnarfundi

Ögmundur hefur enn efasemdir
Ögmundur hefur enn efasemdir
Fyrirhuguð leiga kínverska fjárfestisinins Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum var rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir samninginn sem bjóða á Nubo hafi ekki verið lagðan fyrir fundinn.

Iðnaðarráðherra, sem hefur forræði yfir málinu, kynnti stöðuna fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar í morgun.

Ögmundur Jónasson er meðal þeirra ráðherra sem þar óskaði eftir frekari upplýsingum.

„Við höfum ekki séð samninginn. Samningurinn var í rauninni ekki kynntur heldur svona farið almennum orðum um málið.En að sjálfsögðu hljóta menn að vilja sjá þennan samning," segir hann.

„Þetta er meira en að segja það að ráðstafa landi, hvort sem það er eignarlandi eða afnotaréttur að landi, sem liggur að öræfum Íslands, að ráðstafa slíkum rétti út fyrir landssteinana. Það verður ekkert gert bara eins og að drekka úr vatnsglasi. Við þurfum að skoða það mjög vandlega. Sú umræða hófst í morgun en henni var ekki lokið," segir Ögmundur.

Meðal þess sem Ögmundur óskaði upplýsinga um er sú fyrirtækjasamsteypa sem þarna á í hlut, nánari gögn um áformin og hvernig að þessu verði staðið.

Sem kunnugt er lagðist Ögmundur mjög gegn kaupum Nubo á Grímsstöðum, og hefur verið rætt um að verið sé að fara einskonar bakdyraleið með því að leigja honum landið.

Mál Nubo hefur áður verið rætt á ríkisstjórnarfundi.

„Þetta er í öðrum farvegi núna. Nú eru menn að skoða lög sem heimila ívilnanir fyrir erlendar fjárfestingar, og með þeim hætti er hægt að ná kannski sömu markmiðum og áður var rætt um, en í öðru ferli. Ég hef verið með ákveðin varnaðarorð uppi og það hefur ekkert slegið á mínar efasemdir í þessu máli," segir Ögmundur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×