Innlent

Nubo feginn því að Ögmundur hafi ekkert með málið að gera

Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo segir í samtali við kínverska blaðið China Daily í dag að samningar séu nærri í höfn um leigu hans á Grímsstöðum á fjöllum. Hart hefur verið tekist á um málið og segir Nubo að svo virðist sem þolinmæði hans sé loks að bera ávöxt.

„Ég held að niðurstaðan verði ekki langt frá því sem ég vonaðist eftir," segir Nubo í samtali við blaðið en í upphafi vildi hann kaupa landið. Því var hinsvegar synjað af Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra. Nú ganga áformin út á að sveitarfélög á Norðurlandi kaupi landið og leigi, Zhongkun, félagi í eigu Nubo það. „Með því að leigja landið er ólíklegt að málinu verði hafnað, því innanríkisráðherrann hefur ekkert með málið að gera í þetta skipti," segir Nubo í samtali við blaðið.

Þá kemur fram í viðtalinu að Nubo vonist til að leigusamningurinn verði til 99 ára, en hingað til hefur verið rætt um að leigan verði til 40 ára. Hann segist vonast til að geta skrifað undir samninginn um miðjan júní og að ferðamannamiðstöðin sem hann áætlar að reisa á jörðinni verði tekin til starfa eftir fimm ár.

Hér má sjá viðtalið við Huang Nubo í China Daily.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×