Innlent

Ekki verið að fara bakdyraleið að samningum við Nubo

Erla Hlynsdóttir skrifar
Iðnaðarráðherra segir alls ekki verið að fara bakdyraleið að samningum við Huang Nubo með því að leigja honum land Grímssstaða á Fjöllum. Nubo sjálfur virðist kominn lengra í samningsferlinu en íslensk stjórnvöld, ef marka má yfirlýsingar hans í kínverskum fjölmiðlum í dag.

Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti iðnaðarráðherra niðurstöður nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar, sem komst að þeirri niðurstöðu að fyrirhugaður leigusamningur við Nubo uppfylli skilyrði sem sett eru í lögum um ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

„Það er þá bara staðfesting á því að þessi nefnd mælir með því við iðnaðarráðherra og við stjórnvöld að ef að til þessa verkefnis kæmi þá væru öll skilyrði fyrir því að gera við fyrirtækið og við féliagð, fjárfestingasamning," segir Oddný Harðardóttir, iðnaðarráðherra.

Nubo sjálfur virðist kominn lengra í ferlinu en íslensk yfirvöld, en í samtali við China Daily segir hann að ef málið fái jákvæða umfjöllun á ríkisstjórnarfundinum í dag, verði samningurinn að veruleika.

Þar talar Nubo einnig um að hann vonist til að leigusamningurinn verði til 99 ára, en íslensk yfirvöld hafa alltaf talað um 40 ára samning.

Þá segir Nubo við China Daily að hann telji að ólíklegt sé að honum verði meinað um að leigja landið, því innanríkisráðherra hafi ekki lengur með málið að gera.

Oddný ítrekar að í morgun fór aðeins fram kynning á niðurstöðum nefndarinnar.

„Það sem mér fannst vera mikilvægt er að kynna ríkisstjórninni niðurstöður nefndarinnar, þetta er aðeins það skref, það voru engar samþykktir gerðar," segir Oddný,

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði í hádegisfréttum okkar að hann hefði enn miklar efasemdir og hefði óskað eftir frekari upplýsingum.

Oddný, talað hefur verið um að sú leið sem hér er farin, að leigja Nubo landið í stað þess að selja honum það, megi kalla bakdyraleið. Ertu sammála því?

„Nei, ég er alls ekki sammála því vegna þess að sú leið sem hér er farin, í gegn um lögin um ívilnanir, og fjárfestingasamninga, það er leiðin sem að stjórnvöld marka," svarar Oddný.

Sjá lög frá 2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga.



Sjá viðtalið við Huang Nubo í China Daily





Fleiri fréttir

Sjá meira


×