Innlent

Misskilningur að samningar séu í höfn

Haft er eftir Huang Nubo í kínverskum miðli að samningar um leigu hans á Grímsstöðum á Fjöllum séu í höfn. Talsmaður hans segir þó að um misskilning sé að ræða.

Á fréttasíðunni China Daily segir kínverski kaupsýslumaðurinn að samningurinn sé í höfn eftir að málið hafi verið samþykkt í ríkisstjórn Íslands.

Hann segist hafa fengið þessar gleðifregnir frá umboðsmanni sínum hér á landi á föstudagskvöld.

Eins og fram hefur komið í fréttum hér á landi var málið þó aðeins kynnt í ríkisstjórninni og engin afstaða tekin til þess á þeim fundi.

Halldór Jóhannesson talsmaður Huang Nubo hér á landi segir að um misskilning blaðamannsins í China Daily sé að ræða. Nubo hafi sagt honum, sem rétt sé, að hugmyndin hafi fengið grænt ljós frá nefnd iðnaðarráðuneytisins um ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

Halldór segir að málið standi nú þannig að þeir búist við að heyra frá iðnaðarráðuneyti eftir helgina og þá verði farið í að klára fjárfestingasamninginn um málið. Jafnframt sé verið að vinna við að klára leigusamninginn fyrir lóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×