Innlent

Valdaflokkunum í Grikklandi refsað

Útgönguspár í þingkosningunum í Grikklandi benda til þess að tveir helstu flokkar landsins hafi beðið afhroð. Flokkarnir tveir, vinstriflokkurinn Pasok og hægriflokkurinn Nýtt lýðræði, hafa ráðið lögum og lofum í grískum stjórnmálum frá því á áttunda áratugi síðustu aldar þegar lýðræði komst á að nýju í landinu. Flokkarnir tveir hafa verið saman í stjórn frá því í nóvember en almenningur virðist nú hafa fengið nóg af niðurskurði síðustu mánaða og því útlit fyrir algjöra uppstokkun.

Grískur stjórnmálaskýrandi, George Sefertzis, segir í samtali við AP fréttastofuna að ungir kjósendur hafi snúist algjörlega gegn gömlu flokkunum og kenni þeim alfarið um þá stöðu sem Grikkland er í um þessar mundir.

Útgönguspár gera ráð fyrir því að Nýtt lýðræði verði stærsti flokkurinn á þinginu, en þó með aðeins um 17 til 20 prósent atkvæða og Pasok mælist þriðji stærsti flokkurinn. Kosningabandalag vinstri flokka, sem virðist ætla að ná öðru sætinu í kosningunum með 15 til 18 prósent atkvæða, hefur lýst sig andstætt niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar.

Þá hafa margir smærri flokkar grætt á reiði grísks almennings og til dæmis gera útgönguspárnar ráð fyrir því að nýnastistaflokkurinn Gullin Dögun nái í fyrsta sinn mönnum á gríska þingið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×