Innlent

Forstjóri Húsasmiðjunnar ætlar að kæra auglýsingar Bauhaus

Forstjóri Húsasmiðjunnar segir fyrirtækið ætla að kæra auglýsingar byggingavöruverslunarinnar Bauhaus til neytendastofu. Forstjóri Byko segir verðsamanburð hafa leitt í ljós að Bauhaus er ekki alltaf með lægsta verðið.

Eins og mörgum er kunnugt opnaði Bauhaus byggingavöruverslun við Vesturlandsveg í gærmorgun og var gríðarlegur fjöldi fólks mættur við opnunina. Forstjórar Byko og Húsasmiðjunnar segjast ekki vera hræddir við samkeppnina eftir að hafa borið saman verð þeirra og Bauhaus

„Það var mjög glaðleg tíðindi fyrir okkur að við komum vel út úr þeim í það heila, auðvitað eitthvað sem við vorum með dýrari og líka margar sem við vorum ódýrari og við kættumst mjög þegar við sáum það, segir Guðmundur H. Jónsson, forstjóri Byko.

„Sem betur fer þá sáum við það að við vorum bara með mjög samkeppnishæf verð, ef frá eru talin opnunartilboð þar sem menn eru að fara ansi nálægt kostnaðarverðum en auðvitað eru það einhver verð sem við þurfum að laga og þá gerum við það," segir Sigurður Arnar Sigurðsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.

Bæði Húsasmiðjan og Byko hafa verið áberandi á auglýsingamarkaði að undanförnu enda hefur opnun Bauhaus átt sér langan aðdraganda forstjórarnir telja hins vegar ólíklegt að verð muni lækka mikið með tilkomu Bauhaus.

„Ég held að í raun komi ekkert nýtt til Íslands með tilkomu Bauhaus, enda höfum við fylgst með þessum markaði gríðarlega lengi erlendis," segir Guðmundur.

„Hugsanlega á hluta af markaðnum en almennt þá er bara markaðurinn í nokkuð góðu jafnvægi," segir Sigurður.

Bauhaus hefur í sínum auglýsingum haldið því fram að þeir séu bæði með lægsta verð í Reykjavík og besta verð á landinu. Sigurði finnst þessar auglýsingar ganga of langt.

„Það er náttúrulega bannað að fullyrða svona í auglýsingum í efsta stigi og þegar við sjáum að það stenst ekki eins og við höfum séð, þá munum við taka til okkar ráða í því og leita til neytendastofu með það," segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×