Innlent

Aron Karlsson: "Ég lýsi mig saklausan"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Aron Karlsson eftir þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Aron Karlsson eftir þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mynd/ vilhelm.
„Ég lýsi mig saklausan af öllum sakargiftum," sagði Aron Karlsson kaupsýslumaður við þingfestingu ákæru á hendur honum í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Aron er ákærður fyrir fjársvik og til vara skilasvik með því að hafa sem stjórnarmaður í félaginu Vindasúlum ehf. blekkt Arion banka, Glitni banka og Íslandsbanka, sem voru veðhafar í fasteigninni Skúlagötu 51 til að aflétta veðum að fasteigninni vegna kauptilboðs áður en eignin var síðan seld á miklu hærra veði til kínverska sendiráðsins hér á landi. Þannig fóru bankarnir á mis við að minnsta kosti 114 milljónir króna, sem var ávinningur Arons, samkvæmt ákæruskjali.

Sömu sakir eru bornar á lögaðila, AK fasteignir ehf. en Aron er jafnframt fyrirsvarsmaður fyrirtækisins. Sveinn Jónatansson var skipaður verjandi Arons.

Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknarfulltrúi hjá embætti sérstaks saksóknara mótmælti skipun Jóns Þórs Ólasonar hdl. sem verjanda AK Fasteigna ehf. ( sem áður hét 2007 ehf. ) á þeim grunni að Jón Þór yrði kvaddur til að bera vitni í málinu. Vitni getur ekki verið verjandi, samkvæmt sakamálalögum en Jón Þór er á vitnalista ákæruvaldsins í málinu. Jóni Þór mótmælti þessu og óskaði eftir nokkurra daga fresti og verður sjálfstæður málflutningur um þessa kröfu.

Arion banki, Íslandsbanki og slitastjórn Glitnis gera skaðabótakröfu í málinu sem nemur ætluðu tjóni þeirra, alls rúmlega 150 milljónum króna. Málflutningur um kröfu um að Jón Þór víki sem verjandi AK Fasteigna ehf. verður næsta þriðjudag, hinn 15. maí næstkomandi. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×