Innlent

Stálu 25 kílóum af gasi

Þjófar stálu samtals 25 kílóum af gasi frá fyrirtæki í Reykjanesbæ fyrr í vikunni samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum. Sá eða þeir sem þarna voru að verki höfðu klippt í sundur lás á geymslugrind sem er á bak við fyrirtækið og komist þannig inn í hana.

Þá fékk lögreglan á Suðurnesjum tilkynningu um þjófnað í Nettó í Reykjanesbæ í gær. Sá fingralangi reyndist enn vera í versluninni þegar lögreglumenn mættu á vettvang og skilaði hann vörunum, sem hann hafði tekið, óskemmdum.

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði svo í nótt ökumann vegna gruns um að hann væri ölvaður undir stýri. Maðurinn harðneitaði að hafa neytt áfengis, þótt af honum væri megn áfengislykt. Hann var tvívegis látinn blása í áfengismæli án þess að mælanleg útkoma fengist út úr blæstrinum. Hann var því handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var hann enn látinn blása í áfengismæli en bar því þá við að hann gæti ekki blásið þar sem mælirinn væri stíflaður.

Með þessu framferði leit lögreglan svo á að hann neitaði að gefa öndunarsýni og honum gerð grein fyrir því að slíkt varðaði, samkvæmt umferðarlögum, 100 þúsund króna sekt, auk árs sviptingar ökuréttinda, að viðbættri sekt og sviptingu fyrir ölvunarakstur.

Að því búnu var honum enn gefið tækifæri til að blása en hann þverskallaðist við. Fagaðili var þá fenginn á lögreglustöðina til að taka blóðsýni úr manninum sem hinn síðarnefndi féllst á eftir nokkurt þóf. Prófanir á áfengismælinum sýndu að hann var í fullkomnu lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×