Enski boltinn

Mikilvæg stig hjá West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jack Collins og James Tomkins fagna í kvöld.
Jack Collins og James Tomkins fagna í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
West Ham á enn möguleika á að ná öðru sæti ensku B-deildarinnar í lokaumferð tímabilsins um næstu helgi eftir 2-1 sigur á Leicester á útivelli í kvöld.

West Ham er nú með 83 stig og er tveimur stigum á eftir Southampton sem er nú í öðru sæti. Reading var þegar búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og þar með úrvalsdeildarsæti.

Liðið í öðru sæti fylgir Reading upp en liðin í 3.-6. sæti taka þátt í umspilskeppni um eitt laust úrvalsdeildarsæti til viðbótar.

Jermaine Beckford kom Leiceser yfir í fyrri hálfleik en Winston Reid jafnaði metin áður en flautað var til hálfleiks. Jack Collison skoraði svo sigurmark West Ham á 59. mínútu með glæsilegu skoti af um 25 metra færi.

West Ham mætir Hull í lokaumferðinni á laugardaginn og þarf að treysta á að Southampton tapi helst fyrir Coventry á sama tíma. Jafntefli í þeim leik þýðir að West Ham þarf minnst þriggja marka sigur gegn Hull.

Það verður svo barátta á milli Cardiff og Middlesbrough um sjötta sætið og það síðasta í umspilskeppninni en fyrrnefnda liðið er nú með tveggja stiga forystu á Boro-menn.

Portsmouth, Coventry og Doncaster eru öll fallin úr deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×