Innlent

Segir gagnrýni Sigmundar Davíðs ekki standast skoðun

Höskuldur Kári Schram skrifar
Björn Valur Gíslason segir Sigmund með innistæðulausa morfís-rökspeki að vopni.
Björn Valur Gíslason segir Sigmund með innistæðulausa morfís-rökspeki að vopni.
Formaður þingflokks vinstri grænna segir að yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns framsóknarflokks um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi valdið meiri skaða en hrunið sjálft séu kjánalegar og standist ekki skoðun.

Sigmundur gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í Rúgbrauðsgerðinni í gær. Þar sagði hann meðal annars að viðbrögð ríkisstjórnarinnar hefði verið dýrkeyptari en hrunið sjálft.

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks vinstri grænna, segir að þessi ummæli séu varla svaraverð.

„Fyrst og fremst er þetta kjánalegt og varla umræðuhæft og undirstrikar hvers konar stjórnmál þessi auðkýfingur sem er í forystu Framsóknarflokksins er að ástunda. Og einkennast fyrst og fremst af svona stráksskap og upphrópunum og morfís ræðumennsku. Þetta er algerlega innantómt og stenst enga skoðun og er varla þess virði að rökræða um," segir Björn Valur.

Björn segir að ríkisstjórnin hafi náð verulegum árangri í efnahagsmálum og fráleitt sé að líkja stöðunni í dag við þá stöðu sem var uppi í hruninu.

„Í hruninu var því spáð að atvinnuleysi færi upp í 20 prósent. Það var spá frá Samtökum atvinnulífsins, stéttarfélögunum og ASÍ og aðrir spáðu því að þetta færi yfir 20 prósent. Atvinnuleysi er of hátt, en það er hvergi lægra en á Íslandi í OECD ríkjunum. Fjárfesting hrundi hér í hruninu vegna þess að það var fjöldgjaldþrot hjá fyrirtækjum. Verkefni töpuðust opinberir sjóðir þurrkuðust upp og það varð ekkert úr framkvæmdum. Fjárfesting hér á landi á síðasta ári var 14% af vergri þjóðarframleiðslu. Hún stefnir mun hærra í ár og er að verða með því hæsta sem gerist innan OECD ríkjanna. Ég gæti rakið svona tölur endalaust sem merki um mikinn bata á Íslandi, sem hefur vakið aðdáun erlendra ríkja og eftirtekt. Það breytir því ekki að ástandið er erfitt. En að bera það saman við það sem var hér í hruninu er fullkomlega óréttmætt og á sér enga innistæðu og það er ekki hægt að rökræða á þessum nótum," segir Björn Valur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×