Innlent

Einungis 2% til framkvæmda í Reykjavík

Karen Kjartansdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður segir þetta borginni til skammar.
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður segir þetta borginni til skammar. mynd/ Valli.
Fjárframlög til nýframkvæmda í Reykjavík hafa aðeins verið tæplega tvö prósent af heildarfé sem veitt er til vegaframkvæmda og viðhalds á landinu undanfarin ár. Þingmaður Sjálfstæðisflokkins segir stöðuna ólíðandi og borginni til skammar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hefur látið samgöngumál sig miklu varða, segir fyrirhugað samkomulag meirihlutans í Reykjavík við ríkisvaldið um frestun á vegaframkvæmdum og mannvirkjagerð í Reykjavík en bættum almenningssamöngum, borginni til skammar. Aðeins 100 milljónir hafi farið til Reykjavíkur í fyrra en það sé um eitt prósent í nýframkvæmdir af þeim fjármunum sem fari í viðhald og framkvæmdir á landinu öllu.

„Vill einhver í alvöru segja að það sé of mikið. Hvernig má það vera að það séu til stjórnmálamenn í meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur sem hreykja sér að því að hafa farið til ríkisins og samið um að þetta verði svona áfram. Ef maður skilur málið rétt, eins og það er lagt upp með eru menn jafnvel að draga enn úr þessum fjármunum. Ég hef ekkert á móti almenningssamgöngum en hér eru bílar og hér er fólk og við erum að horfa á það að vegirnir okkar í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu og ef að þeir skemmast er mjög dýrt að gera við þá," segir Guðlaugur Þór.

Sjálfstæðismenn í borginni hafa mótmælt samkomulagi meirihluta borgarinnar harðlega og segja þær fela í sér tíu ára frestun á samgöngubótum á borð við Sundabraut, lausnir við mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og göng undir Öskjuhlíð.

Formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar, hefur á móti bent á að samkomulagið byggist á viljayfirlýsingu sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi staðið að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×