Innlent

Segir stjórnvöld sýna ættleiðingum lítinn áhuga

Kona sem hefur beðið eftir að fá að ættleiða barn í tvö ár segist úrkulna vonar þar sem íslensk yfirvöld líti á málaflokkinn sem afgangsstærð. Hún segist sjálf þekkja til Íslendingar sem hafa misst af tækifærinu til að ættleiða vegna tregðu kerfisins.

Félagið Íslensk ættleiðing er illa statt fjárhagslega og hefur neyðst til að leggja niður undibúningsnámskeið fyrir kjörforeldra sem átti að halda síðar í mánuðinum. Ekki er hægt að senda umsókn þeirra út fyrr en að lokinni þátttöku en þrjátíu og fjórir eru á biðlista eftir að komast á námskeiðið, þar á meðal kona sem hóf ættleiðingarferlið fyrir tveimur árum.

„Ég hefði ekki farið af stað ef mig hefði grunað að tveimur árum seinna þá væri ég rétt nýbúin að fá forsamþykki af því að málið mitt er búið að veltast svo lengi um í kerfinu."

Á öðrum norðurlöndum geta kjörforeldrar vænst að fá forsamþykkir á sex mánuði. Viðmælandi okkar hefur einungis tækifæri til að ættleiða frá Kína þar sem hún er einhleyp, en þar eru gerðar strangar kröfur.

„Eftir þessi tvö ár og þann kostnað sem ég hef lagt út af þessu, þá strandar allt á þessu litla námskeiði af því að íslensk yfirvöld virðast ekki telja að það sé þeim skylt að sinna þessum málaflokki eins og þeir gera."

Samþykki til ættleiðingar er meðal annars háð aldri umsækjenda og því skiptir það verðandi kjörforeldra máli að allt gangi sem hraðast fyrir sig hér á landi.

Viðmælandi okkar er á fertugasta og sjöunda aldursári, og þannig hefur hún samkvæmt Kínverskum reglum þrjú ár til að klára allt ferlið. Ef það tekur lengri tíma hefur hún misst af lestinni.

„Maður missir bara vonina og verður svolítið vonlaus um að þetta gangi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×