Innlent

Þingeyingar bíða enn eftir stórframkvæmdunum

Forystumenn Þingeyinga kalla eftir því að stjórnvöld sýni meiri festu í að koma stóriðjuframkvæmdum í gang. Formaður bæjarráðs Norðurþings segir skort á svörum frá ríkisstjórn tefja viðræður um kísilver.

Tvö og hálft ár eru liðin frá því ríkisstjórnin hafnaði að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver á Bakka, í því skyni að leita fleiri valkosta, og eitt og hálft ár er frá því iðnaðarráðherra sagði Þingeyingum að fara að búa samfélagið undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Þeir hafa síðan beðið og bíða enn og var Jón Helgi Björnsson, formaður bæjarráðs Norðurþings, spurður í viðtali í fréttum Stöðvar 2 hvort þeir væru komnir í biðflokk. Hann segir erfitt fyrir samfélög að bíða lengi eftir stórframkvæmdum en kveðst þó gera sér vonir um að þetta muni hafast á endanum.

Vonir um að samningar um kísilver á Bakka yrðu undirritaðir snemma á þessu ári hafa ekki ræst. Meðal þess sem truflar er að kísilver er mun minna en álver og er því ekki talið geta staðið í sama mæli undir margvíslegum kostnaði við aðstöðusköpun. Jón Helgi segir skorta svör frá ríkisvaldinu um hvernig það ætli að koma að gerð vegtenginga að Bakka og hafnaruppbyggingu og þetta stöðvi það að hægt sé að halda áfram viðræðum við kísilfyrirtækin.

Stöð 2 greindi frá því fyrir tveimur mánuðum að svissneska álfyrirtækið Klesch hefði óskað eftir viðræðum um að reisa meðalstórt álver á Bakka. Jón Helgi segir heimamenn ætíð hafa litið á álver sem spennandi kost en sama gildi ekki um ríkisstjórnina. Hann kveðst ekki hafa orðið var við að neinar viðræður hafi farið af stað við álfyrirtækið og hvetur til þess að menn horfi á alla þætti með jákvæðum hætti.

Þá kallar hann eftir því að stjórnvöld sýni meiri festu í þessum verkefnum og beiti sér harðar í að koma þeim í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×