Innlent

Í einangrun eftir að kókaín fannst í sjampóbrúsa

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem var tekinn með tæplega 190 grömm af kókaíni á Keflavíkurflugvelli í byrjun þessa mánaðar.

Þann 6. apríl var maðurinn stöðvaður af tollvörðum vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í fórum sínum en hann var að koma með flugi frá London. Tollverðir fundu kókaínið í sjampóbrúsa í farangri mannsins. Á sama tíma og maðurinn var handtekinn var annar maður, sem var að koma með sama flugi, skoðaður vegna gruns um að hann hefði einnig fíkniefni á sér. Það reyndist ekki rétt. Hinsvegar fundust gögn á honum sem tengdu hann við hinn manninn og ferðalag hans. Lögreglan telur sig hafa rökstuddan grun um að mennirnir hafi í samvinnu staðið að innflutningnum.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að við rannsókn lögreglu hafi komið fram sterkar vísbendingar um að fleiri aðilar séu viðriðnir innflutninginn. Lögreglan telur sig vita um hvaða aðila sé að ræða og vinni nú að hafa uppi á þeim.

„Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og miðað við þau gögn sem lögregla hafi þegar aflað og rannsakað virðist sem að málið muni vinda nokkuð upp á sig og muni það verða umfangsmeira en upphaflega hafi verið útlit fyrir," segir í úrskurði Hæstaréttar.

Maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. apríl en hann sætir einangrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×