Innlent

Ruddust tvívegis inn í sömu íbúðina - rændu snjóbuxum og sveðju

Þrír karlmenn voru sakfelldir í Héraðsdómi Suðurlands á föstudaginn fyrir að ryðjast tvívegis inn á heimili manns, hóta honum líkamlegu ofbeldi og að hafa á brott með sér eigur mannsins, svo sem fartölvur, hátalarakerfi og snjóbuxur.

Mennirnir ruddust inn á heimili mannsins með sex daga millibili í desember árið 2010. Í annað skiptið sem þeir ruddust inn á heimilið rændu þeir einnig fartölvu, tösku, farsíma og svo sveðju. Einn þeirra var vopnaður hafnaboltakylfu á meðan á ráninu stóð.

Allir mennirnir, sem eru á þrítugsaldrinum, hafa komið við sögu lögreglu áður. Einn meðal annars fyrir gróft ofbeldisbrot. Tveir mannanna fengu 14 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm, en gæsluvarðhald sem þeir sættu vegna rannsóknar málsins, dregst frá afplánuninni.

Sá þriðji fékk tíu mánaða dóm en refsingu er frestað og fellur niður haldi viðkomandi skilorð í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×