Innlent

Wipeout braut í Laugardalslaug

Laugardalslaug opnar í fyrramálið eftir þriggja daga lokun vegna framvkæmda og endurbóta. Á morgun, sumardaginn fyrsta, geta börnin því notið nýrra leiktækja sem sett hafa verið upp, meðal annars „jakahlaupabraut" í stíl við þrautirnar í Wipeout þáttunum vinsælu. Þá hafa verið settar upp svokallaðar slöngubrautir fyrir yngstu börnin.

„Einnig hefur verið komið fyrir skvettiskálum og nýjum körfum við barnalaugina. Laugardalslaug verður opin á sumardaginn fyrsta frá kl. 8 - 22 og er það sami tími og opið er um helgar," segir í tilkynningu.

Þá segir ennfremur að endurbæturnar hafi gengið vel. „Ákveðið var að hafa laugina opna yfir allan framkvæmdatímann ef frá eru taldir þrír dagar í þessari viku og hafa gestir sýnt mikla þolinmæði. Nú geta gestir gengið frjálsar um bakka laugarinnar, sem lagðir hafa verið mjúku gúmmíefni til þæginda. Gæði breytinganna á bökkunum koma þó enn betur í ljós næsta vetur því undir lúrir ný snjóbræðsla. Þó mörgum verkþáttum sé nú lokið er eftir að ganga frá nýjum sjópotti sem kemur við stúkuna austanmegin og er búist við að því verki ljúki um miðjan maí."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×