Innlent

"IKEA er sífellt að þróa nýjar vörur"

Úr kynningarmyndbandi IKEA.
Úr kynningarmyndbandi IKEA. mynd/YouTube
„IKEA er komið á fullt í raftækin," sagði Stefán Dagsson, verslunarstjóri IKEA, en hann var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Stefán ræddi við þáttastjórnendur um óvæntar fréttir frá stjórnendum sænska húsgagnaframleiðandans.

Fyrr í vikunni bárust fregnir af því að IKEA hefði í hyggju að ráðast inn á raftækjamarkaðinn. Stjórnendur IKEA hafa opinberað sjónvarpstæki sem fyrirtækið hefur þróað ásamt kínverskum samstarfsaðilum. Talið er að sjónvarpið fari í sölu í völdum borgum í Evrópu í næsta mánuði.

„Sjónvarpið er kallað UPPLEVA," sagði Stefán. „Og þetta er í raun algjör bylting í sjónvarpsgeiranum."

Stefán segir að sjónvarpið hafi innbyggðan DVD og BluRay spilara, þráðlausa hátalara og fleira. „Það eru í raun engar snúrur sem fylgja sjónvarpinu."

„Sjónvarpið kemur samsett," sagði Stefán aðspurður um hvort að viðskiptavinir neyðist til að skrúfa tækið saman þegar heim er komið. „Það þarf að smella saman sjónvarpsskápnum sjálfum. Mynddiska spilarinn fer síðan inn í skápinn ásamt hátölurum."

Stefán segir að IKEA sé sífellt að þróa nýjar vörur og nýjungar séu ær og kýr fyrirtækisins. Þá hafi IKEA á Íslandi tekið inn rúmlega þúsund nýjar vörur á síðustu mánuðum."

Hægt er að hlusta á áhugavert viðtal við Stefán hér fyrir ofan. Þá er einnig hægt að sjá kynningarmyndband sem IKEA birti vegna UPPLEVA hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×