Innlent

Rödd þjóðarinnar - 30 þúsund Íslendingar syngja saman

Frá upptökum í Neskaupstað.
Frá upptökum í Neskaupstað.
Kórstjórinn og Önfirðingurinn Halldór Gunnar Pálsson, vinnur að heldur athyglisverðu verkefni þessa dagana. Hann ferðast nú um landið og tekur upp „Rödd Þjóðarinnar" fyrir lokakafla nýs lags fyrir Fjallabræður.

„Við fengum þessa brjáluðu hugmynd um að fá þessa einu sönnu rödd þjóðarinnar - sem alltaf er verið að tala um - til að taka þátt í laginu," segir Halldór. „Fyrir 18 dögum varð þessi hugmynd að veruleika og við hófum að safna röddum."

Markmiðið er að safna röddum 10% þjóðarinnar eða um 30 þúsund röddum. „Við höfum tekið upp 1.462 einstaklinga síðan verkefnið hófst."

Halldór ásamt röddum Djúpavogs.
„Við byrjuðum fyrir vestan og nú er ég staddur á Egilsstöðum," segir Halldór. „Þetta fer í raun þannig fram að ég hef samband við skóla, kóra og bæjarskrifstofur áður en ég kem í bæinn. Síðan fæ ég aðstöðu til að taka upp og fólk mætir á staðinn - ýmis undurbúið eða óundirbúið, það skiptir svo sem engu."

„Það fylgir þó iðulega þögn eftir að ég hef kynnt verkefnið fyrir fólki," bætir Halldór við.

Halldór segir að verkefnið hafi sannarlega undið upp á sig. Hann mun ferðast um landið næstu vikur en vonast til að klára verkefnið í sumar. „Síðan hafði ég hugsað mér að sofa í tvo daga eða svo," segir Halldór.

Þúsundasta röddin var Dagný Elísdóttir á Fáskrúðsfirði.
Í maí vonast Halldór til að taka upp í Reykjavík. „Við munum smala saman fólki og auglýsa vel hvar upptökurnar fara fram," segir Halldór. Á laugardaginn mun Halldór heimsækja menningarhúsið Hof á Akureyri og taka þar upp klukkan 13:00. Hann hvetur fólk til mæta og taka þátt.

Fjöldi tónlistarmanna kemur að laginu. Þar á meðal eru Fjallabræður, Unnur Birna Björnsdóttir og lúðrasveit Vestmannaeyja. Halldór samdi lagið en Jökull Jörgensen sá um textann.

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um verkefnið á heimasíðu Halldórs, Þjóðlag. Þar má meðal annars finna texta lagsins sem og nótur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×