Innlent

Fjárfestar beri ábyrgðina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjárfestar verða að bera ábyrgðina, segir Gunnlaugur Jónsson.
Fjárfestar verða að bera ábyrgðina, segir Gunnlaugur Jónsson. mynd/ pjetur.
„Ég held að orðið ábyrgð sé mikilvægt og ég held að það hafi skipt máli í bankahruninu. En ég held að það sé líka mikilvægt í öllu mannlegu lífi," segir Gunnlaugur Jónsson fjárfestir. Hann hefur skrifað bók sem ber þann einfalda titil Ábyrgðarkver: Bankahrun og lærdómurinn um ábyrgð. Hann segir að ábyrgð skipti máli, bæði þegar menn hugi að sínu eigin lífi en líka þegar rætt er um opinbert kerfi og stjórnmál.

„Ég held að bankahrunið kenni okkur ákveðna lexíu um ábyrgð og ég held að það geti orðið til góðs að því leyti. Ef við notum tækifærið og hlustum. Það sem ég held að það kenni okkur er að persónuleg ábyrgð er mikilvæg. Í aðdraganda bankahrunsins, á mjög löngu árabili, byggðist upp bóla í bankakerfinu vegna þess að allt bankakerfið út um allan heim, þar með talið á Íslandi var talið njóta ríkisábyrgðar. Það gerði það að verkum að fólki fannst það ekki bera ábyrgð á peningunum sínum sjálft," segir Gunnlaugur. Þar á hann við bæði innistæðueigendur og stærri lánveitendur.

„Fólk hugsaði ekki um peningana sína sjálft, það gerði ekki kröfur til bankanna sjálft," segir Gunnlaugur. Hann bendir jafnframt á að þetta fólk sé samt sem áður í góðri stöðu til þess að gera kröfu til bankanna. „Vegna þess að það getur tekið peningana sína út úr banka eða neitað að lána án þess að það geti talist gerræðisleg beiting á valdi," segir Gunnlaugur. Gunnlaugur bendir á að kerfi þar sem neytandi eða fjárfestir beri ábyrgð sé miklu betra en kerfi þar sem slík ábyrgð er tekin af þeim. „Þá er sett upp opinbert eftirlit sem á að koma í staðinn fyrir þessa persónulegu ábyrgð," segir Gunnlaugur. Slíkt sé aldrei jafn öflugt og vald neytandans. „Það kemur ekkert í staðinn fyrir persónulega ábyrgð," segir Gunnlaugur.

Bók Gunnlaugs er komin úr prentun en af því tilefni hefur hann ákveðið að blása til útgáfuhófs. Það verður í Eymundsson á Skólavörðustíg klukkan fimm á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×