Innlent

Sérstakur saksóknari þarf ekki að láta upptökur af hendi

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu verjenda Lárusar Welding og Guðmundar Hjaltasonar, fyrrum Glitnismanna, að sérstakur saksóknari afhendi þeim geisladiska með mynd- og hljóðupptökum af skýrslutökum yfir þeim. Þeir Lárus og Guðmundur hafa verið ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánveitinga til Milestone.

Sérstakur saksóknari hafði sjálfur áður hafnað kröfunni og var því óskað eftir að héraðsdómur myndi úrskurða um skyldu ákæruvaldsins til að láta upptökurnar af hendi. Meðal annars að upptökurnar gætu hugsanlega komist í hendur óviðkomandi aðila og verið birtar á Netinu. Dómarinn tók hinsvegar í morgun undir sjónarmið sérstaks saksóknara í málinu og hafnaði kröfunni.

Verjendur fyrrverandi Kaupþingsstjóra, sem ákærðir eru fyrir markaðsmisnotkun í al-Thani málinu, hafa jafnframt farið fram á að þeim verði afhentar upptökur af yfirheyrslum í því máli. Sérstakur saksóknari hefur líka hafnað því að láta þær upptökur af hendi. Úrskurðað verður í því máli þann 29. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×