Innlent

Glitnismenn áfrýja til Hæstaréttar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Þór Hauksson er sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson er sérstakur saksóknari.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, frá því í dag, í máli sérstaks saksóknara gegn Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni hefur verið kærður til Hæstaréttar. Þetta staðfestir Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður og verjandi Guðmundar í samtali við Vísi. Hann vildi að öðru leyti ekki láta hafa neitt eftir sér um málið.

Málið snýst um það að sakborningarnir, þeir Lárus og Guðmundur, fóru fram á að fá afrit af hljóð- og myndupptökum af skýrslutökum hjá lögreglu í málinu. Sérstakur saksóknari hafnaði kröfunni, meðal annars af ótta við að upptökurnar myndu leka á Netið. Úrskurður dómara var embætti sérstaks saksóknara í hag.

Ef Hæstiréttur staðfestir úrskurð héraðsdóms má ætla að það hafi töluvert fordæmisgildi. Sakborningar í svokölluðu al-Thani máli, sem eru fyrrverandi stjórnendur Kaupþings, hafa krafist þess að fá sambærilegar upptökur afhentar en sérstakur saksóknari hefur líka hafnað þeirri kröfu. Ætla má að hið sama verði upp á teningnum þegar sérstakur saksóknari ákærir í fleiri málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×