Innlent

Skiptir máli að kona verði næsti biskup

Agnes Sigurðardóttir var ein af tveimur efstu í kjörinu í gær.
Agnes Sigurðardóttir var ein af tveimur efstu í kjörinu í gær.
Það skiptir máli að kona verði næsti biskup Íslands bæði vegna ásýndar kirkjunnar og jafnréttisstefnu. Þetta segir Agnes Sigurðardóttir prestur í Bolungarvík sem hlaut flest atkvæði í fyrri umferð biskuskjörsins í gær.

Tilkynnt var um úrslit í fyrri umferð biskupskjörsins í gær. Átta voru í framboði. Agnes Sigurðardóttir prestur í Bolungarvík hlaut flest atkvæði eða tæp 28% og Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju næst flest atkvæði eða um 25%. Þar sem enginn hlaut meira en 50% atkvæða verður kosið á milli tveggja efstu það er þeirra Agnesar og Sigurðar Árna. Sú kosning hefst í byrjun apríl og eiga úrslit að liggja fyrir 21. apríl.

Agnest segist ekki hafa vitað hverju hún átti von á fyrir kjörið.

„Ég hef fundið fyrir miklu stuðningi en ég reyndar átti ekki von á svona miklum stuðningin en ég er auðvitað þakklát fyrir hann," segir Agnes.

„Mér fannst afar áhugavert að dreifingin skyldi ekki vera meiri. Það kom mér á óvart að það skyldu tvö vera áberandi efst, og það kom mér gleðilega á óvart að það var svona fallegur fléttulisti á körlum og konum í fjórum efstu sætunum," segir Sigurður Árni.

„ Ég stefni að því að leggja höfuðárherslu á fjölskyldutengt starf, starf í þágu barna og unglinga, því að kirkjan þarf að leggja mikla rækt við allt fjölskyldu- og heimilatengt starf," segir Sigurður Árni.

Þá vakti athygli að tvær konur skyldu verða í þremur efstu sætunum í kjörinu í gær. Agnes telur það skipta máli að kona verði næsti biskup Íslands en það yrði þá í fyrsta sinn.

„Það skiptir náttúrulega máli varðandi jafnréttisstefnuna því að það hefur samkvæmt henni þá hafa ekki markmið hennar náðst að fullu en þetta er einn liður í því að markmið hennar náist að kona verði biskup. Að því leytinu til skiptir það máli, vegna ásýndar kirkjunnar og jafnréttisstefnu þá tel ég að það skipti máli," segir Agnes.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×