Innlent

Tvær skærustu reikistjörnurnar sjást mjög vel í kvöld

Stjörnur á himni
Stjörnur á himni
Næstu tvö kvöld gefst landsmönnum tækifæri á að sjá tvær skærustu reikistjörnurnar og mánann dansa saman á himnum. Síðustu forvöð til að sjá þríeykið saman í langan tíma segir stjörnuáhugamaður.

Reikistjörnurnar Júpíter og Venus hafa prýtt kvöldhimininn í vestri undanfarnar vikur og í kvöld og annað kvöld heldur sjónarspilið áfram þegar örmjór vaxandi máni heilsar upp á þær tvær en þríeykið sést mjög sjaldan saman að sögn Sverris Guðmundssonar, ritara Stjörnuskoðunarfélagsins.

„Ég man eftir því fyrir um það bil átta árum," segir Sverrir. Og hvenær munum við geta séð þetta aftur? „Ætli það sé ekki eitthvað álíka langt þangað til."

Og getur maður séð þetta með berum augum? „Já, þetta sést mjög greinilega með berum augum en ef fólk á stóran handsjónauka eða lítinn stjörnusjónauka þá ætti það endilega að reyna að kíkja á Júpíter til dæmis. Það er möguleiki á að sjá tungl Júpíters, allt að fjögur tungl, og það er það sama og Galileó sá fyrir 400 árum."

Þeir sem vilja vita meira um sjónarspilið geta heimsótt síðu Stjörnuskoðunarfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×